Ólsen ólsen upp og niður

Eftir spilagjöf er stokkurinn settur í borðið og efsta spili snúið við. Spilarar rekja stokkinn upp eða niður og eiga að losna við öll sín spil. Þegar spilari á eitt spil eftir á hann að segja ólsen og ólsen ólsen þegar hann er búinn.


2-5
7+
10 mín

Spilagjöf

Gefið er sólarsinnis þannig að hver spilari fær fyrst þrjú spil og svo tvö, alls fimm spil. Restin af stokknum er lögð á grúfu á borðið svo er efsta spilið tekið upp og lagt við hlið hans þannig að það snýr upp. Sá byrjar sem situr vinstra megin við þann sem gaf og þessi spilari gefur í næsta spili.

Framgangur spilsins

Markmið spilsins er að losna við öll spil af hendinni. Sá sem á leik setur út spil sem er annað hvort einu hærra eða einu lægra en það sem liggur í borði og fer það ofan á spilið sem fyrir var.

Dæmi: Efsta spilið er 9. Þá má spilari leggja annað hvort 8 eða 10 ofan á.

Ef spilari getur ekki lagt út spil verður hann að draga eitt spil úr stokknum. Ef spilari getur ennþá ekki lagt út verður hann að draga annað spil. Ef hann getur enn ekki lagt út á hann að draga þriðja spilið. Ekki má draga oftar en þrisvar sinnum.

Leikmenn skiptast á að gera og eiga þeir að leggja niður spil eða draga spil úr stokkinum. Þegar spilari á eftir eitt spil á hendi á hann að segja: Ólsen. Ef hann gleymir því verður hann að draga þrjú spil úr stokkinum. Þegar spilari leggur niður síðasta spilið sitt á hann að segja: Ólsen ólsen. Ef það gleymist á hann að draga þrjú spil úr stokkinum. Ef stokkurinn klárast áður en spilinu lýkur er efsta spilið í bunkanum skilið eftir í borðinu en hin spilin eru stokkuð vandlega áður en stokkinum er komið aftur fyrir á sama stað, við hlið spilsins .