Markmið leiksins er að safna fjórum eins spilum (fernum). Sá sem er síðastur til að taka eftir því að einhver hefur blásið út kinnarnar fæ fyrsta bókstafinn í orðinu ,,búbbla“ og svo næsta ef þetta gerist aftur. Sá vinnur leikinn sem síðastur er til að mynda orðið ,,búbbla.“ Spilarar geta verið 4-13.
Spilagjöf
Gjafari gefur leikmönnum fjögur spil á mann og leggur svo stokkinn fyrir framan sig á borðið.
Framgangur spilsins
Gjafari dregur eitt spil úr stokknum í byrjun umferðar og ákveður hvort hann vilji halda því eða láta það af hendi. Hann rennir svo spili (því sem hann dró eða öðru) til leikmannsins sem situr honum á vinstri hönd. Sá leikmaður metur sömuleiðis hvort hann vilji halda spilinu og láta annað ganga til næsta spilara eða láta spilið sem hann fékk ganga áfram. Þannig gengur þetta þar til síðasti spilarinn hefur fengið spil. Spilið sem hann lætur af hendi er sett í kastbunka. Þegar leikmaður hefur safnað fernum blæs hann út kinnarnar. Hinir spilararnir eiga að vera á vakt fyrir því að einhver blási út kinnar og gera þá slíkt hið sama. Sá sem er síðastur til þess að blása út kinnarnar tapar þessari umferð og er kominn með stafinn ,,b.“ úr orðinu ,,búbbla". Þannig heldur þetta áfram, leikmenn fá næsta staf úr orðinu þegar þeir eru síðastir til þess að blása út kinnarnar. Leikmaðurinn sem er síðastur til þess að mynda orðið ,,búbbla“ vinnur leikinn.
Ef bunkinn klárast án þess að sigurvegari sé kominn er kastbunkinn stokkaður og settur fyrir framan gjafara.
Afbrigði: Í stað þess að blása út kinnarnar eru settar skeiðar í miðjuna á borðinu, einni færri en fjöldi spilara. Þannig að ef spilarar eru t.d fjórir eru settur þrjár skeiðar á borðið. Sá sem er kominn með fernu tekur þá eina skeið. Hinir spilararnir mega þá reyna að ná sér í skeið líka. Spilarinn sem ekki nær í skeið fær bókstafinn ,,s“ sem er fyrsti stafurinn í ,,skeið“. Misjafnt er hvort spilarinn grípi skeið sína hratt eða hvort hann laumast til þess að ná í skeið. Ef hann þrífur skeið verður væntanlega hamagangur þegar hinir spilararnir verða varir við það og reyna líka að ná í skeið. Ef hann laumast til þess reyna hinir kannski að laumast í skeið líka. Ef engar eru skeiðarnar má notast við aðra hluti, t.d eldspýtur.