Gúrka

Spil sem gengur út á að enda með sem lægst spil á hendi í lok hverrar umferðar. Sá sem endar með hæsta spilið leggur það til hliðar og eru spilin talin í lok hverrar umferðar. Þegar stigin fara yfir 21 hefur spilarinn tapað. Sá vinnur sem stendur einn eftir.


2-4
10+
30 mínútur

Spilagjöf

Í fyrstu umferð fær hver spilari tíu spil, í annarri umferð níu o.s.frv.


Framgangur spilsins

Markmið spilsins er að reyna að losa sig við háu spilin og enda með sem lægst spil í hverri umferð. Hæsta spilið er laufa sexa og telur hún sem 21 stig en að öðru leyti gildir venjuleg spilaröð með ásinn hæstan. Sumir spila þetta reyndar þannig að svörtu sjöurnar eru hæstar.

Sá byrjar sem er í forhönd og má setja út eins mörg spil og maður vill en þau verða þá að vera af sömu sort, t.d tveir ásar. Sá sem næstur á að setja út þarf að leggja út jafnhátt spil eða hærra, þá laufasexuna ef t.d búið er að setja út ás. Ef sá sem á að gera á ekki jafnhátt spil eða hærra (eða vill ekki setja það út) verður spilari að leggja niður lægsta spilið sem hann hefur á höndinni. Sá vinnur slaginn sem á hæsta spilið í honum. Ef fleiri en eitt spil eru hæst, t.d tveir kóngar,þá vinnur sá spilari slaginn sem lagði út síðari kónginn. Sá sem hefur hæsta spilið á hendinni í lok umferðarinnar heldur því og leggur það niður á borðið hjá sér, í geymslubunka. Þessi spil eru svo talin í lok hverrar umferðar. Sá sem vann slaginn má nú leggja út og byrja nýjan slag. Þegar allir spilarar hafa klárað spilin sem þeir hafa á hendinni er gefið aftur og þá níu spil o.s.frv. Ef þrír eru að spila og einn hefur klárað öll sín spil en hinir tveir ekki halda þeir áfram uns þeir hafa klárað sín spil.

Ef einhver endar með laufa sexuna í lok umferðar hefur hann tapað spilinu.


Útreikningur

Spilarar telja stigin sem komin eru í geymslubunkann þeirra í lok hverrar umferðar. Þegar spilari fer yfir 21 stig hefur hann tapað spilinu en hinir halda áfram uns einn spilari stendur eftir og er hann þá sigurvegari. Ef spilin í geymslubunkanum telja samtals nákvæmlega 21 stig má spilarinn henda bunkanum og er þá með 0 stig. Munið að laufasexan (eða svörtu sjöurnar ef þið veljið að spila með þær sem hæstu spil) gefur 21 stig. Þannig að ef spilari hefur engan geymslubunka en endar með laufasexuna springur bunkinn hans. Ef spilari hafði hins vegar t.d fimmu í geymslubunkanum sínum og stendur svo uppi með laufasexuna sem hæsta spil hefur hann tapað.

Afbrigði

Sumir hafa það þannig að eftir að búið er að gefa má sá sem er í forhönd skipta út eins mörgum spilum og hann vill fyrir þau sem eru í bunkanum. Þeir sem á eftir koma mega líka skipta út spilum en aldrei fleiri en þau sem spilarinn á undan skipti út. Hann má þó skipta út jafnmörgum. Þannig gengur þetta allan hringinn.

Eins spila sumir Gúrku þannig að eftir að einn spilari neyðist til þess að henda lægsta spili sínu í bunkann má næsti spilari setja út lágt spil sem er hærra en það sem búið var að setja en ekki endilega sitt lægsta spil, ef hann gat ekki lagt út svo hátt spil að hann gæti unnið bunkann.

Segjum að Baldur leggi t.d út drottningu og Sunna á ekkert hærra. Hún leggur þá út þrist sem er hennar lægsta spil. Jón á ekkert spil sem er hærra en drottning en lægsta spilið hans er tvistur. Vegna þess að Sunna er búin að leggja út þrist má Jón leggja út fimmu í staðinn og halda tvistinum.

Sumir spila líka þannig að í byrjun eru gefin sex spil og svo fimm o.s.frv. Eftir að gefið hefur verið eitt spil eru næst gefin tvö og þannig farið upp í fimm. Síðan er farið niður og svo upp í fjögur o.s.frv.