Spilagjöf
Notaðir eru þrír spilastokkar með þremur jókerum í hverjum stokki. Jókerinn gildir sem allt eftir að spil hefst. Hver spilari fær þrettán spil og er gefið eitt spil í einu. Eftir að spilarar hafa fengið sín spil er bunkinn settur á hvolf á mitt borðið og efsta spilinu snúið við.
Framgangur spilsins
Spilið er átta umferðir og hafa spilarar það sem markið í hverri umferð að losa sig við spil og safna röðum eða þrennum. Röð er fjögur spil í sömu sort og geta byrjað eða endað á ás. Ef spilari safnar fleiri en einni röð í umferð mega raðirnar ekki vera í sömu sort (þ.e.a.s. hjarta og hjarta, þetta verður að vera t.d. hjarta og spaði). Raðir þurfa að vera lámark fjögur spil en það er ekkert hámark, þær stoppa samt alltaf á ásnum. Þrennur eru samsettar af að lágmarki þremur eins spilum en þurfa ekki að vera í sömu sort. Ekkert hámark er á lengd þrenna. Það er mismunandi eftir umferðum hvaða markmið spilarar hafa og er ágætt að hafa það skrifað hjá sér hverju á að safna í hverri umferð.
Þegar spilari hefur náð að safna því sem er í umferðinni má hann leggja niður þegar röðin kemur að honum. Spilarar reyna svo að losa sig við spilin með því að leggja við hjá öðrum og að auki má taka jókera úr röðum annara. Þó má spilari ekki taka jókera eða leggja við hjá öðrum ef hann hefur ekki lagt niður sín spil og ekki má taka jókera úr þrennum.
Sá sem er í forhönd á alltaf rétt á að taka spil sem hent er út en vilji leikmaðurinn það ekki mega aðrir taka það og kalla þá „kaupi“! Þeir sem kaupa, taka spilið sem hent er út og efsta spilið úr stokknum sömuleiðis. Það má ekki kaupa spil oftar en þrisvar í hverri umferð og er þá fjöldi spila á hendi orðinn 19. Ef keypt er í fjórða skiptið fær spilari refstistig sem eru 200 stig. Þegar allir hafa gert einu sinni er fyrsta umferð búin og komið er að umferð 2 sem hefur aðrar söfnunarreglur en sú fyrsta.
Hver umferð hefst á að efsta spilinu er snúið við í stokknum. Áður en að þessu spili er snúið við í hverri umferð spyr sá sem er í forhönd hvort allir séu tilbúnir og snýr svo efsta spilinu við. Þannig fá allir jafnt tækifæri á að kaupa kjósi sá sem er í forhönd ekki að nýta það. Fyrstur kaupir, fyrstur fær! Ef ágreiningur rís um hver var á undan að kaupa eru dregið efstu spil úr stokk til leikmanna sem deila og sá sem dregur hærra spilið má kaupa. Spilin sem voru dregin voru eru síðan sett í miðjan stokkinn. Í áttundu og síðustu umferðinni er ekki hægt að "kaupa" í spilinu.
Spilarar mega ekki ráða hverju þeir safna heldur eru það umferðirnar sem ráða því.
Röð umferða og söfnun:
- Röð og þrenna
- Tvær þrennur
- Tvær raðir
- Tvær þrennur og ein röð
- Tvær raðir og ein þrenna
- Þrjár þrennur
- Þrjár raðir
- Tvær raðir og tvær þrennur (Öll spilin 13 sem gefin voru + eitt sem dregið er úr bunka til að leggja niður)
Stigagjöf:
Í spilinu gildir að fá sem fæst stig og losa sig við sem flest spil. Sá sem er með fæst stig í lok allra 8 umferðana er sigurvegari.
- Jóker = 50 stig
- Ás = 20 stig
- 10-gosi-drottning-kóngur = 10 stig
- 2-9 = 5 stig
Hér má sjá myndband þar sem Kínaskák er kennd: https://kinaskak.weebly.com/video.html