Kóngur úti í horni

Tveir spilarar reyna að losna við öll sín spil með því að rekja þau upp og niður á spil sem liggja í borði. Sömuleiðis má færa spil í borðinu á milli stokkanna sem þar myndast.


2
6+
10 mín

Þetta spil hentar prýðilega yngri börnum.

Spilagjöf

Gjafari gefur leikmönnum átta spil (fyrst þrjú spil, svo tvö og síðan aftur þrjú). Leikmenn passa að enginn annar sjái spilin. Síðan er stokkurinn settur á hvolf á mitt borðið. Fjögur spil eru dregin úr stokknum og lögð við hlið hans þannig að þau snúa upp, tvö sitt hvoru megin.

Framgangur spilsins

Markmið leiksins er að losna við öll spil af hendinni. Leikmenn gera til skiptis og byrja alltaf á að draga spil úr stokknum. Sá sem ekki gaf byrjar. Eftir að hann hefur dregið spil leggur hann spil ofan á spil sem liggur í borði, einum hærra eða einum lægra en það sem er í borðinu og í öðrum lit.Spilari má sömuleiðis færa spil í borði ofan á annað spil í borði með sömu reglu og áður; einum hærra eða lægra og í öðrum lit. Spil sem er fært þannig má hafa annað spil ofan á sér.

Dæmi: Rauð tía á hendi er lögð ofan á svartan gosa í borði.Eða: Rauð tía í borði (sem má vera með spil ofan á sér) er færð ofan á svarta gosann.

Spilarinn sem er að gera má leggja niður eins mörg spil og hann vill þegar hann á leik. Kónga skal leggja við horn spilastokksins og síðan eru rekin spil ofan á þá, á sama hátt og gert er við hin spilin fjögur. Ef það myndast eyða þar sem eitthvert hinna fjögurra spila var lagt niður í upphafi má leggja hvaða spil sem er í hana.

Spilinu lýkur þegar annar spilarinn hefur losað sig við öll sín spil og er hann sigurvegari spilsins.