Kan kan

Spilarar safna fjórum eins spilum í bunka fyrir framan sig og skipta á spilum við önnur sem eru fyrir miðju borðs. Þegar búið er að safna fjórum eins spilum í alla bunkana er bankað á þá og sagt: Kan kan 1, kan kan 2, kan kan 3, kan kan 4.


2-3
10+
15 mín

Spilagjöfin

Gjafari setur fjögur spil í bunka á hvolf fyrir framan sig og bætir við þremur þannig bunkum. Hann gerir það sama fyrir mótspilarann þannig að báðir hafa nú fjóra bunka með fjórum spilum í hverjum á borðinu fyrir framan sig. Fjögur spil eru því næst sett á borðið milli spilara og látin snúa upp. Restin af spilunum eru lögð til hliðar í bunka til að nota síðar.

Framgangur spilsins

Spilarar byrja á sama tíma að kíkja í bunkana sína og gera það þannig að þeir taka upp einn bunka í einu og skoða hvað er í bunkanum. Þeir leggja svo niður bunkann aftur, á hvolf, og skoða í næsta, þar til þeir hafa skoðað alla fjóra bunkana. Spilari má bara vera með einn opinn bunka í einu, sem hönd, hinir eiga að liggja á hvolfi á borðinu.

Takmarkið er að safna fjórum eins spilum í hvern bunka, t.d fjórum sjöum, fjórum kóngum eða fjórum tíum. Þetta er gert með því að skipta á einu spili í bunka á móti einu spili í borði og eru allir að keppast við þetta á sama tíma. Ekki má skipta spilum milli bunka. Ef spilari er t.d með tvær sjöur í einum bunka og eina sjöu í öðrum þá verður hann að taka sjöuna, setja hana á mitt borðið og taka annað spil í staðinn, leggja svo niður þennan bunka á hvolf, taka upp bunkann með sjöunum tveimur og skipta á einu spili í þeim bunka móti sjöunni í borðinu. Annar spilari gæti því verið búinn að taka sjöuna á meðan! Stundum neyðast spilarar því til þess að hætta að safna ákveðnum spilum og byrja að safna öðrum.

Þegar enginn spilari vill skipta lengur á spilum sem eru í borðinu eru þau tekin í burtu og ekki notuð meira. Gjafari tekur nú fjögur ný spil úr afgangsbunkanum og leggur þau á borðið. Hefjast spilarar nú aftur handa við að skipta á spilum sem eru í borði.

Þegar spilari er búinn að safna fjórum eins spilum í bunka bankar hann á bunkann og segir: Kan kan 1! Við næsta bunka segir hann: Kan kan 2! o.s.frv. Sá sem fyrstur segir Kan kan 4! er búinn að sigra.

Misjafnt er hvort spilarar snúa við bunkunum og segja Kan kan um leið og bunki er búinn eða hvort það á að snúa öllum bunkum við í lokin, banka á þá og segja Kan kan 1-4, allt með sömu hendi.