Spilagjöf
Öll spilin eru gefin, eitt og eitt í einu, og er gjöfin að venju réttsælis. Eftir fyrstu gjöf skiptast spilarar á að gefa og er sá sem er í forgjöf næstur að gefa og þannig koll af kolli.
Spilið byrjar á því að hver spilari tilkynnir um lágmarksfjölda slaga sem hann ætlar að taka með félaga sínum og er lægsta sögnin sjö. Sá sem er í forgjöf er fyrstur að segja og síðan gengur hringurinn réttsælis. Ávallt verður að segja hærri tölu en þá sem spilarinn á undan tilkynnti en að öðrum kosti segja pass. Gefið skal tækifæri til þess að hækka sig. Ef spilari ætlar sér að taka alla slagi spilsins, þrettán talsins, segir hann: Kani.
Sá sem skuldbindur sig og félaga sinn til þess að taka flestu slagina er sagnhafi.
Framgangur spilsins
Sagnhafi ræður tromplit og leggur hann út spil í þeim lit, venjulega lægsta spilið sem hann á. Um leið biður hann um hæsta spilið sem hann á ekki í trompinu. Sá spilari sem á það spil verður að leggja það út og er sá spilari nú félagi sagnhafans. Hinir tveir verða þá samspilarar og eiga að reyna að fella sagnhafann og félaga hans. Spilarinn sem átti hæsta spilið leggur nú út og hinir fylgja á eftir. Skylda er að fylgja lit en hafi spilari ekkert spil í þeirri sort sem er í borðinu getur hann annað hvort trompað (lagt út spil í tromplit) og þá mögullega tekið slaginn eða sett út spil í einhverjum öðrum lit. Hæsta spilið í litnum sem er í borði vinnur slaginn nema að einhver setji út tromp. Þá tekur hæsta trompið slaginn. Spilari sem tekur slag á alltaf að setja út næst.
Uppgjör
Þegar spilinu er lokið þarf að gera það upp. Ef sagnhafi og félagi hans standa við sögnina fá þeir jafnmörg stig og talan á slögunum sem þeir sögðust ætla að taka nema í því tilviki sem þeir sögðust ætla að fá Kana. Ef það tókst fá þeir fimmtíu stig. Ef sagnhafaparið tók fleiri slagi en það sagðist ætla að taka fær það engin stig fyrir það.
Ef sagnhafa tekst ekki að standa við sögnina fá andstæðingarnir jafnmörg stig og hinir hefðu fengið.
Til þess að ákveða hversu lengi skuli spila hafa menn um tvo kosti að velja:
a) Spilað þar til einhverjum tekst að ná einhverjum ákveðnum fjölda stiga, t.d 100.
b) Spilapeningar eru notaðir í spilinu og þá er gert upp eftir hvert spil.
Afbrigði
Sumir spila Kana þannig að sagnhafi biður einungis um hæsta trompið og þá lætur einhver í hópnum vita að hann hafi það. Sagnhafi lætur síðan það út sem hann vill og ekki endilega tromp. Enn aðrir spila þetta þannig að handhafi hæsta trompsins lætur sagnhafann fá það og fær eitthvert annað spil í staðinn.