Marías

Spilarar ná slögum og nota tromp. Bara er notast við spil frá 7 og bara tían og upp úr gefa stig. Stigin eru gerð upp í lokin.


2
12+

Spilagjöf

Gjafari byrjar á því að taka stokkinn og fjarlægja öll spil fyrir neðan 7 (2-6), þau eru ekki með í spilinu. Ásinn er hæstur. Gjafarinn gefur síðan spilurum fimm spil á mann, setur bunkann svo í borðið og snýr við efsta spilinu. Þetta spil er svo lagt þvert undir bunkann og er trompið í þessu spili.

Framgangur spilsins

Sá sem ekki gaf byrjar og setur út sort. Ef þetta er spil sem gefur stig þá er það sett í bunka fyrir framan spilarann. Mótspilarinn setur svo út. Ef það spil er hærra eða tromp (það má ekki svíkja lit) þá vinnur sá aðili slaginn og fær spilin í sinn bunka. Ef spilið er undir 10 þá fer það í ruslbunka við hliðina á. Sá sem vinnur umferðina dregur svo fyrst nýtt spil úr bunkanum. Maður er alltaf með fimm spil á hendi, þar til spilin klárast. Ef spilari fær tromp sjöu á hendi þá má hann skipta á henni og trompspilinu sem er undir bunkanum hvenær sem er í spilinu, sem kemur sér vel ef þetta er mannsspil eða ás.

Ef spilari fær hjón í sömu sort á hendi getur hann lýst með hjónum og sýnir þau hinum spilaranum. Hinn spilarinn skuldar þá 20 stig í lokin þegar bunkarnir eru gerðir upp og ef það eru tromp hjón þá er skuldin 40 stig.

Spilið gengur út á að drepa af hinum og safna stigum, allt fyrir neðan tíuna eru hundar og þeim er hent til hliðar eftir að þeim er spilað út.

Í lokin er gert upp.

Ás=50 stig

Kóngur=40 stig

Drottning=30 stig

Gosi=20 stig

Tía=10 stig

Fyrir venjuleg hjón = 40stig

Fyrir tromphjón = 80stig

Fyrir alslemm í trompi þ.e. frá tíu -ás =300stig!

Ef þú átt alla gosana, ásana o.s.frv er það summa þeirra sem spilari reiknar sér sem stig og kallast það grikkur, t.d drottningargrikkur, kóngagrikkur o.s.frv. Sjöa til níu gefa engin stig.

Í annarri útgáfu er stigagjöfin svona:

Fjögur eins spil gefa bónus sem spilarar ákveða í byrjun og trompröð hefur tvölföld stig.

Önnur stig er hægt að fá í spilinu sjálfu, þ.e. áður en öll spilin eru búin úr bunkanum. Það eru:

100 stig fyrir að vera með allar 10 á hendi í einu

200 stig fyrir að vera með alla gosa á hendi í einu

300 stig fyrir að vera með allar drottningar á hendi í einu

400 stig fyrir að vera með alla kónga á hendi í einu

500 stig fyrir að vera með alla ása á hendi í einu

500 stig fyrir að vera með röð í einhverjum lit öðrum en tromplit (10,g,d,k,á)

1000 stig fyrir að vera með trompröðina

Til að fá þessi aukastig þarf að sýna mótspilaranum spilin sín. Spilari getur ekki lýst yfir hjónum eða neinu öðru svona eftir að öll spil hafa verið dregin úr bunkanum, það verður að gerast áður.