Merki eða Games

Tveir og tveir spila saman og koma sér saman um merki sem þeir geta gefið hvor öðrum þegar annar hvor er kominn með fjögur spil af sömu sort. Spilarar lauma spilum sín á milli þar til einhver er kominn með fjögur spil.


4
8+
10 mín

Spilagjöf


Spilurum gefið eitt spil í einu þar til allir eru komnir með fimm spil á hendi. Restin af spilunum er skipt í tvo bunka sem settir eru á miðju borðsins.


Framgangur spilsins

Tveir og tveir spila saman og eru spilapör valin saman annað hvort með því að skrifa nöfn fólks á miða og miðar svo dregnir út eða með því að fólk dragi spil, taka t.d tvö spil af sömu gerð, alls fjögur spil,og fólk dragi svo spil. Tvistar spila þá t.d saman og fjarkar saman.

Markmið spilsins er að safna fjórum spilum í sama lit, hjarta, spaða, laufi eða tígli. Venjulega er best að halda sig við sama litinn allt spilið.

Spilafélagar koma sér saman um eitthvað ákveðið merki sem fólk á að gefa hvort öðru þegar það er komið með fimm spil í sama lit. Merkið getur t.d verið að bíta í vörina, blikka hratt, hreyfa fingurnar á ákveðið hátt o.s.frv. Mikilvægt er að merkið sé ekki of áberandi svo ekki sé auðvelt fyrir andstæðingana að taka eftir því. Merkið má gefa frá því að spilari tekur upp spil og sér að hann er kominn með fjögur spil og þar til búið er að leggja spil á borðið til þess að lauma til spilarans á vinstri hönd. Ekki má vera búið að taka spilið upp.


Spilið hefst þegar allir spilarar velja samtímis eitt spil af hendi og renna því eftir borðinu til þess sem situr þeim á vinstri hönd. Allir taka spilin upp á sama tíma. Þetta er endurtekið þar til einhver hefur fengið fjögur spil í sama lit. Spilarinn gefur þá félaga sínum merki og gerir sig reiðubúinn að slá höndinni á annan bunkann sem er á borðinu. Besta augnablikið til að slá á bunkann er venjulega eftir að búið er að setja niður spil en vitanlega áður en það er tekið upp af spilaranum vinstra megin. Allir mega slá á bunka. Þegar búið er að slá á bunkana tekur sá sem er neðstur með höndina upp einhvern hluta af bunkanum og tekur það spil sem blasir við. Þessum spilum safnar spilari svo saman fyrir framan sig.

Leiknum er haldið áfram uns bunkarnir af borðinu eru búnir.


Útreikningur

Þegar spilin eru búin reiknar fólk hvað það er komið með mörg stig með því að telja töluna sem stendur á hverju spili sem það hefur tekið upp. Nía gefur níu stig, tía gefur tíu stig, gosi ellefu o.s.frv.


Fólk má ráða hvort það heldur sama félaganum allt spilið eða hvort skipt er milli leikja. Ef grunur vaknar hjá fólki um að andstæðingarnir séu búnir að fatta hvert merki manns er mega spilapör koma sér saman um annað merki milli leikja.


Spilið hefur stundum verið kallað Games eða jafnvel James.