Púkk

Spilarar láta út spil fyrir ofan og/eða neðan spilið sem er úti. Sá vinnur sem klárar spilin sín og fær hann þá spilapeninga frá hinum, fyrir hvert spil sem þeir eiga eftir á hendi.


2-7
10+
15 mín

Gögn

Tveir spilastokkur og spilapeningar.

Undirbúningur

Tekin eru úr stokknum lægstu spilin; tvistar, þristar og fjarkar ef sjö ætla að spila, ef spilarar eru sex eru fimmur teknar út í viðbót og ef fimm spila eru sexurnar teknar út sömuleiðis.

Spilpeningum er nú dreift til spilara og má gjarnan nota eldspýtur sem spilapeninga. Það er gott ef hver spilari getur fengið 80-100 stykki og ekki er verra ef fólk á varasjóð!

Nú er tekinn fram hinn spilastokkurinn og fjarlægð úr honum háspilin, t.d. hjartaás, kóng, drottningu, gosa, tíu, og svo laufagosi sem kallast "panfíll". Þessi spil eru kölluð klæðningarspil.

Ef sex sitja að spili hefur hver og einn sitt spil af þessu úrvali til þess að "klæða". Það kallast að klæða þegar peningar eða eldspýtur eru settir ofan á þessi spil, sem eiga að liggja hjá hverjum og einum spilamanni. Þau þarf að klæða fyrir upphaf hvers hrings sem spilaður er. Sitji sex að spili eru sex spilapeningar lagðir á klæðningarspilið.

Ef fimm sitja að spilum er panfíllinn stakur á borðinu og hver og einn leggur einn pening á hann en fimm peninga á sitt klæðningarspil.

Þegar sjö eru við spilaborðið er hjartasexan tekin úr klæðningarspilastokknum og kallast það spil púkkið og er sjöundi spilamaðurinn sem það klæðir. Stundum er þetta spil klætt þótt sex sitji að spilinu og leggur þá hver sinn eyri í púkkið.

Klæðningarspilunum er raðað sólarsinnis t.d. frá norðurenda borðsins. Fyrst kemur ás, svo kóngur, drottning, gosi, tía og síðast panfíll og sexan (sé hún með) hægra megin við þann sem ásinn klæðir nema þessi tvö (eða annaðhvort þeirra) séu stök eins og er þegar ekki er fullsetið að spilinu.

Spilagjöf

Sá sem klæðir ásinn er fyrsti til að gefa, fimm spil á mann; fyrst þrjú spil og svo tvo. Afgangurinn er settur í stokk á miðju borði og efsta spilinu velt upp þannig að liturinn sjáist. Liturinn ræður því hver getur rakað til sín klæðninguna sem er hjá hverjum og einum spilamanni. Dæmi: Spaðanía kemur upp. Þá er litið á spilin sem á hendi eru. Hver sem á spaða háspil á hendi dregur til sín klæðningu af samsvarandi klæðningarspili, t.d. sá sem er með spaðatíu dregur að sér klæðningu af tíunni o.s.frv. Þær reglur gilda að sá sem á laufagosann á klæðninguna af panfílnum. Ef lauf kemur upp í stokknum á sá sem hefur laufagosann á hendi klæðningu af báðum gosunum. Ef púkkspilið (sexan) er með í leiknum á sá klæðninguna af því spili ef hann á sexuna í litnum sem valt upp í stokknum. Sá sem gefur á klæðninguna á því spili sem upp veltur í stokk sé það háspil eða annað spil sem klætt er.

Framgangur spilsins

Sá sem er til vinstri handar þess er gefur er í forhönd lætur fyrst spil út. Markmiðið er að vinna hverja umferð í spilinu þ.e "trekkja". Spilareglur eru þær að sá sem á sjöuna í þeim lit sem upp valt í stokknum má "kaupa" spilið sem upp valt ef hann telur að það henti honum eða geti hraðað því að hann trekki.

Galdurinn er sá að spilið sem sett er út "standi" þ.e. ekki sé hægt að rekja litinn lengra. Ef út er sett lágt spil, segjum spaðasjö, skal láta út spaðaáttu og rekja allt upp í ás sem alltaf "stendur" en það gat verið að spaðanía sé í stokknum. Þá stendur áttan og sá sem lét hana út segir "stendur" og á að setja út næsta spil en hann metur stöðuna, lítur á hvað hefur verið dregið af klæðningarspilunum og hvort hann á spil sem gæti "staðið" af því að ljóst sé að spilið sem átti klæðninguna sé í stokknum eða hann á lægra spil í þeim lit sem fyrr var sett út og enginn annar getur rakið.

Þannig stendur það spil og hann á enn rétt á að setja út spil. Sá sem fyrstur getur rakið spilin þannig að hann losnar við öll sín fimm spil segir: "trekki!" og þar með verða allir spilafélagar hans að greiða eyri fyrir hvert spil sem hann á á hendi. Aðeins er leyfilegt að setja spil út eftir það ef svo stendur á að einhver á spil sem næst er í lit, t.d. ef spilið sem trekkti er hjartagosi þá hefði næst getað komið hjartadrottning. Ef svo stendur á segir sá sem þetta spil á: "næstur!" og losnar þar með að greiða fyrir það spil.

Það er gaman að spila púkk með talsverðum hraða og virða þá reglu að sá sem er seinn að átta sig missi af tækifæri til þess að rekja lit; hann hefur sofnað á verðinum.

Hugsanlega getur einn spilamaðurinn átt fimm háspil á hendi í þeim lit sem upp valt og þar með dregið til sín klæðningum af fimm eða sex spilum (ef upp veltur lauf) og sé hann í forhönd rekur hann litinn og trekkir án þess að annar komist að. Þegar hann segir trekki! bætir hann við: "Ég hef allt af öllum!" Sá sem er í forhönd á mestar líkur á að trekkja sé hann útsjónarsamur.

Þegar spilarar eru búnir með spilapeningana sína, geta þeir slegið lán hjá bankanum og haldið áfram að spila.

Leikurinn hættir þegar allir geta komið sér saman um að hætta og þó einn vilji hætta þarf leikurinn ekki að hætta. Dæmi: Ef sá sem er með kónginn vill hætta getur sá með næst efsta spilið fengið kónginn ef hann vill. Spilapeningar þess sem hættir ganga til bankans.

Önnur útgáfa

Alltaf má smeygja lægra spili undir þótt ekki megi ,,trekkja" á þann hátt.

Heimild: Morgunblaðið 30.11.2002: Ég hef alltaf af öllum!