Pakk

Tveir og tveir spila saman og safna slögum, þ.e fjórum spilum með sama talnagildi. Spilarar safna slögum með því að taka spil úr borði og henda á móti jafnmörgum spilum í borðið.


4
10+
15 mín

Spilagjöf

Spilurum eru gefin fjögur spil á hendi. Fjögur spil eru svo lögð í borðið og eru látin snúa upp. Bunkinn er svo settur til hliðar.

Blað og penni er haft við höndina til þess að fylgjast með stigum.

Framgangur leiksins

Markmið spilsins er að safna slögum, þ.e.a.s. fjórum spilum með sama talnagildi. Spilarar koma sér saman um fjölda umferða. Tveir og tveir spilarar spila saman og byrja á að koma sér saman um leynilegt merki, t.d að bíta í vörina, færa spil á hendi á ákveðinn hátt,blikka hratt, yppa öxlum o.s.frv. Spilarar safna slögum með því að taka spil úr borði og henda á móti jafnmörgum. Þegar enginn spilari getur nýtt sér þau spil sem eru í borði er sagt:„Sópa!" Eru spilin sem í borði þá tekin burt og fjögur ný spil sett í borð í staðinn.

Þegar spilari hefur fengið slag gefur hann leynimerkið til spilafélaga síns til að láta hann vita að kominn sé slagur og þá á félaginn að segja:„Pakk!“ Hvort spilapar um sig á að reyna að komast að því hvert merki hins parsins sé. Ef spilara grunar að mótherji sé að gefa merki á hann að segja:„Séð!“ Ef spilarar ná að segja:„Pakk!“ fá þeir eitt stig en ef spilarar ná að segja:„Séð!“ fá þeir stigið í staðinn. Þeir verða þó að sýna hvert merki mótspilaranna var. Ef það reynist vera rétt þurfa hinir spilararnir að finna sér nýtt leynimerki. Ef spilari segir:„Séð“ og ekki er um Pakk að ræða heldur spilið áfram og mótspilaraparið (þ.e ekki parið sem sagði ,,Séð") fær stig.

Það spilapar vinnur sem hefur fengið flest stig þegar spilaðar hafa verið sá fjöldi umferða sem ákveðið var að spila í byrjun spils.